Meðalævilengd karla á Íslandi var 80,9 ár árið 2024 og meðalævilengd kvenna 84,3 ár en meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans.
Frá árinu 1990 hafa karlar bætt við sig rúmlega fimm árum og konur tæplega fjórum í meðalævilengd. Ævilengd karla jókst um 0,2 ár frá árinu 2023 á meðan hún jókst nokkru meira hjá konum eða um 0,5 á milli áranna 2023 og 2024.
Ævilengd háskólamenntaðra jókst mest
Á tímabilinu 2011 til 2024 jókst ævilengd háskólamenntaðra mest, eða um 1,8 ár, á meðan hún jókst um 1,2 ár á meðal framhaldsskólamenntaðra en minnkaði hins vegar á meðal grunnskólamenntaðra um 0,4 ár.
2024 var ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með grunnskólamenntun 52,4 ár á meðan þrítugir grunnskólamenntaðir karlar máttu búast við því að lifa 48,8 ár til viðbótar. Konur með framhaldsskólamenntun gátu vænst þess að lifa tæplega þremur árum lengur en stallsystur þeirra með grunnskólamenntun eða í 55,2 ár frá 30 ára aldri. Munurinn var aðeins meiri á meðal karla þar sem ólifuð ævi 30 ára karla með framhaldsskólamenntun var að meðaltali 52,0 ár eða rúmlega þremur árum lengri en karla með grunnskólamenntun.
Þrítugir háskólamenntaðir einstaklingar gátu átt von á því að lifa mun lengur en þeir sem minni menntun höfðu. Þannig var ætluð ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með háskólamenntun 56,7 ár eða fjórum árum lengri en þrítugra kvenna með grunnskólamenntun árið 2024. Ólifuð ævilengd 30 ára karla með háskólamenntun var 53,9 ár eða fimm árum lengri en þrítugra karla með grunnskólamenntun.

Heimild; Hagstofa Íslands