Inga Sæland ráðherra öldrunarmála
Inga Sæland er nýr félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún tók í dag við lyklum í ráðuneyti sínu úr hendi Bjarna Benediktssonar sem verið hefur starfandi félags- og vinnumarkaðsráðherra frá 17. október sl. en þar áður hafði Guðmundur Ingi Guðbrandsson gegnt embættinu frá því í nóvember 2021. Öldrunarþjónusta færist til ráðuneytisins frá heilbrigðisráðuneyti. Inga Sæland er því ráðherra öldrunarmála.
Nýja ríkisstjórnin sem tók við völdum í dag 22.desember hefur sett saman stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Áhugavert er að skoða hvaða stefna hefur verið sett hvað varðar eldri aldurshópa en nánar útfærslur eru ekki komnar.
Ellilífeyrir mun hækka á kjörtímabilinu
Ríkisstjórnin mun hækka örorku- og ellilífeyrir á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu en þó aldrei minna
en verðlag. Almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar í skrefum upp í 60 þúsund krónur á mánuði, tekið verður upp frítekjumark ellilífeyrisvegna vaxtatekna og dregið úr skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna. Þá verður gripið til frekari aðgerða til að bæta grunnframfærslu tekjulágra lífeyrisþega umfram vísitöluþróun
Sérstökum hagsmunafulltrúa eldra fólks verður falið að standa vörð um réttindi þess.
Fjölgun hjúkrunarrýma og efling heimahjúkrunar
Með fjárfestingu sem styrkir stoðir heilbrigðis- og öldrunarþjónustuum land allt mun ríkisstjórnin leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, m.a. fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun, og vinna að þjóðarmarkmiði um fastan heimilislækni fyrir alla landsmenn.
Spennandi verður að sjá hvernig þjóðarátak í umönnun eldra fólks verður nánar útfært en nú þegar hefur vinna verið í gangi við samþættingu þeirrar öldrunarþjónustu sem veitt er af sveitarfélögum annars vegar og ríki hins vegar undir nafninu Gott að eldast.