Ég hitti í hverri viku einstaklinga á tíræðisaldri og jafnvel yfir hundrað ára sem búa heima og njóta góðra lífsgæða. Af einhverjum ástæðum, sem ég kann ekki skil á, er meiri hlutinn þybbnar konur sem virðast flestar hafa litlar áhyggjur af hvað öðrum finnist um þær og lifa lífinu á eigin forsendum. Ég nota oft tækifærið og spyr út í lífshlaup og lífshætti þeirra til að vita hvað stuðlar að góðu og innihaldsríku lífi á efri árum.
Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO, World Health Organization) vill að næstu 10 árin séu ártíund farsællar öldrunar. Það verði gert með því að öll lönd vinni á 4 sviðum: að draga úr öldrunarfordómum, sjá til þess að samfélagið stuðli að aukinni virkni og færni eldra fólks, sjá til þess að heilsugæsla og flóknari sérhæfð heilbrigðisþjónusta sé einstaklingsmiðuð og samþætt og þegar eldra fólk þarf á langvinnum úrræðum eins og aukinni heimaþjónustu og hjúkrunarheimilum að halda, sé slík þjónusta í boði.
Samkvæmt WHO mun fjöldi 60 ára og eldri aukast fram til 2050 frá 1 milljarði til 1.4 milljarða og vera 22% af heildarfólksfjölda heimsins. Fjöldi 80 ára og eldri mun verða um 425 milljónir manna. Það er því bæði mikilvægt fyrir eldri einstaklinga persónulega, sem og allt samfélagið, að stuðla að góðri heilsu á efri árum.
Þann 4 desember birtist skemmtileg blaðagrein í Stundinni um langlífi sem var byggð á viðtölum við Ólöfu Guðnýju Geirsdóttur dósent í næringarfræði og Ólaf Samúelsson öldrunarlækni. Þau benda á að vissulega hafi genin mikið að segja, en bæði einstaklingsbundnir lífsstílsþættir og samfélagsgerð hafi líklega mun meira að segja um heilsu og hamingju eldra fólks.
Aukinn jöfnuður í samfélaginu og að draga úr fátækt eru líklega hvað áhrifaríkustu samfélagslegu aðgerðirnar. Að draga úr einmanaleika eldra fólks er líka mikilvægt, einmanaleiki er jafnskaðlegur og mikil áfengisneysla.
Einstaklingurinn getur líklega bætt um 15 árum við ævi sína með því að stunda heilbrigðan lífsstíl. Undir heilbrigðan lífsstíl fellur mataræði, líkamsþyngd, hófleg drykkja og að sleppa reykingum. Fólk sem stundar hreyfingu á miðjum aldri fær síður vitræna skerðingu á efri árum og það heldur hreyfifærni lengur. Reglulegar líkamsæfingar, sérstaklega styrktaræfingar eru mikilvægar. Þó er enn mikilvægar að fólk stundi hreyfingu sem það hefur gaman af.
Hvað varðar matarræði þarf að hugsa um næringu allt lífið en áherslurnar eru aðrar við mjög háan aldur, marga sjúkdóma og hrumleika. Rannsóknir Ólafar hafa sýnt að helmingur aldraðs fólks sem leggist inn á öldrunarheimili sé vannært og hún mælilr með að bæði fólk almennt, ættingjar og fagfólk í heilbirgðisþjónsutu séum meðvituð um þessa stöðu . Gott er að lesa leiðbeiningar Landlæknis um næringu eldra fólks við góða heilsu og þeirra sem eru hrumir og veikir.
Heimildir
https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/ageing-and-health
https://stundin.is/grein/14357/lykillinn-ad-langlifi-er-ad-koma-i-ljos/
https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/naering/eldra-folk/