Eru til lausnir til að gera aksturinn þægilegri ?

eftir Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir

Margir standa frammi fyrir þeirri áskorun að þurfa að finna lausnir þegar skerðing á sér stað í færni hjá þeim sjálfum, maka, foreldri eða þeirra nánustu við að ferðast í bíl eða við akstur. Líkamleg eða andleg heilsa getur hrakað og orðið til þess að einföld iðja eins og að setjast inn í bíl getur orðið hin mesta þrekraun. Í slíkum aðstæðum getur reynst erfitt að átta sig á hvaða lausnir gætu mögulega hentað til að bæta þeirra aðstæður með því að einfalda og auðvelda alla þá iðju sem tengist bílnum og akstri.


Það er margt sem gæti mögulega leyst þá iðjuvanda sem myndast við akstur eða við að ferðast í bíl þegar við höfum minni kraft í höndum, getum ekki hreyft okkur eins mikið og áður, eigum erfitt með að lyfta fótum upp í bílinn eða þess vegna við að snúa okkur sitjandi þegar við förum inn og út úr bílnum. Það er því ávallt gott og heillavænt að leita ráða hjá sérfræðingum sem þekkja til þeirra möguleika sem geta leyst iðjuvandann.

Lausnir sem eru í boði hér á landi, eru t.d ýmis hjálpartæki, velferðartækni og styrkir sem hægt er að sækja um


Í dag finnast einfaldar og oft ódýrar lausnir fyrir bíla, farþega og bílstjóra eins og stóru hliðarspeglarnir sem margir nota þegar þeir ferðast með hjólhýsin í afturdragi en þeir geta reynst vel fyrir þá sem vilja hafa betra útsýni við akstur. Sama gildir um lausa baksýnisspegla sem hægt er að festa á framrúðuna, svo lengi sem þeir trufla ekki sjónsviðið fyrir framan bílinn. Bíll með fjarlægðarskynjurum og bakkmyndavél reynist mörgum vel og hægt er að kaupa slíka þráðlausa sem eru festar með segli.

Til viðbótar má m.a. nefna hjálpartæki eins og lyftiband fyrir fætur, snúningstæki í bílsætið, færanlegt handfang til að festa í hurðarfalsi eða við hurðarrammann, lykkjugrip til að ná í bílbeltið með auðveldum hætti eða handfang sem festist við bílbeltisspennuna og einfaldar iðjuna að spenna og losa bílbeltið.


Velferðartæknin reynist líka vel með ýmsum lyftibúnaði sem hægt er að festa t.d. undir bílsætið sem gerir það að verkum að það kemur út úr bílnum fyrir þá sem eiga erfitt að komast inn eða út úr bílnum. Lyftiarmur sem festist í bílskottið sér um að lyfta hjálpartækinu í og úr bílnum t.d. hjólastól eða samanbrjótanlegri rafskutlu. Kúla fest á stýrið til að ná betra gripi og takkastýribúnaður fyrir t.d. stefnuljós, rúðupiss eða rúðuþurrkur fest við stýriskúluna. Stýrispinni, hand- eða fótstýribúnaður þegar handstyrkur minnkar og svo mætti lengi telja.


Það sem hefur glatt mig er hvað mörg tækifæri hafa skapast með tækninni, hjálpartækjum og velferðartækni ásamt styrkveitingum ríkisins. Auk þess er hægt að leigja bíl með rampi að aftan svo hægt sé að bjóða ömmu eða þeim sem er í hjólastól með í ísbíltúr hjá stolabilar.is Rafskutlur hafa reynst góð lausn fyrir styttri akstursvegalengdir til að koma til móts við skerta færni við akstur á bíl og svo má ekki gleyma akstursþjónustu sveitarfélaga. Það er einnig vert að nefna mikilvægi þess að fá mat á akstursfærni ef það kviknar einhver vafi á umferðarvitund einstaklings og öryggi hans við akstur.


Tryggingarstofnun ríkisins (TR) veitir bifreiðastyrk til þeirra sem þurfa vegna hreyfihömlunar og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) veitir styrk fyrir nauðsynlegum hjálpartækjum og velferðartækni. Það er því traustvekjandi að vita að ýmsar leiðir og lausnir geta verið í boði þegar heilsan okkar eða aðstæður breytast sem hefur neikvæð áhrif á getu okkur við að ferðast í bíl eða keyra. Iðjuþjálfar eru sérfræðingar í iðju hversdagsins og það er því gott að leita til þeirra ef það á sér stað iðjuvandi tengt bílnum og akstri.


Samgöngustofa – Akstur á efri árum, leiðbeiningar og góð ráð fyrir eldri ökumenn.
https://eplica.samgongustofa.is/media/umferd/leb_akstur_01_vef.pdf?fbclid=IwAR3qKRJxy
Km_TIl1Ezsb8pL3xiHfEOZ2rMaFVSrPICmdJOX6LiONVnfV4Lo

Sjúkratryggingar Íslands – Um hjálpartæki
https://www.sjukra.is/lyf-og-hjalpartaeki/hjalpartaeki/um-halpartaeki/
Tryggingarstofnun ríkisins – Bifreiðamál
https://www.tr.is/ororka/bifreidamal
Velferðarráðuneytið (2014) – Skýrsla starfshóps um stuðningskerfi til að auðvelda för
hreyfihamlaðs fólks.

https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/rit-og-skyrslur2014/Skyrsla-starfshops-um-studningskerfi-vegna-hreyfihamladra—lokaeintak17.12.2014.pdf

Tengdar greinar