Iðja, heilsa og umhverfið eftir sextugt

eftir Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir

Heilsan okkar er oft lykillinn í að geta tekið þátt í daglegri iðju, að við höfum styrk, úthald og áhuga til að hafa eitthvað fyrir stafni, hitta aðra og njóta lífsins. Það er mikilvægt að við áttum okkur á að heilsa er ekki einungis líkamleg heilsa heldur einnig andleg og félagsleg og því mikilvægt að við kunnum að huga vel að okkar heilsu. Margir hafa sett mjög mikla áherslu á að byggja upp sterkan líkama en gleymum því ekki að eftir höfðinu dansa limirnir og því jafn mikilvægt að huga að andlegri og vitrænni heilsu og það gerum við ýmist ein eða í samneyti við aðra sem skipta okkur máli, gleðja okkur eða deila svipuðum áhugamálum og við.

Minnisþjálfun

Árið 2008 var ég svo heppin að taka þátt í námskeiði til að verða minnisþjálfari. Námskeiðið var byggt upp með gagnlegri fræðslu um heilann og starfsemi líkamans, hreyfingu og æfingum af ýmsu tagi fyrir hendur og hugræna starfsemi, rökhugsun og minnið. Ég mun seint gleyma þessari skemmtilegu viku, langa innkaupalistanum sem við þurftum að kunna utan af án þess að skrifa stakt orð niður á blað og svo þurftum við að kunna alla forseta Bandaríkjanna utan af fyrir lokaprófið og meira til. Ég viðurkenni fúslega að ég man ekki lengur öll nöfnin og röð þeirra nema kannski þann fyrsta og síðustu forseta þess lands þrátt fyrir að hafa fengið 10 í prófinu og með enga villu en ég man vel allar þær aðferðir sem voru kenndar svo ég gæti munað allt sem ég þyrfti. Einnig man ég og kann allar þær aðferðir sem voru kenndar til þess að þjálfa hugann, minnið og rökhugsunina því ég vil vera við stjórnvölinn í mínu lífi og styðja aðra til að vera það líka, einnig þá sem eru farnir að gleyma meira en gengur og gerist.

Mynd: Aldurerbaratala

Góð heilsueflandi ráð

Ég vil gefa þeim sem vilja að hugsa vel um heilsuna sína nokkur góð ráð óháð aldri því í þessum málum er aldur bara tala og því eiga þessi ráð vel við alla. Þú þarft ekki að iðka þau öll en gott að hafa þau í huga því tækifærin geta leynst víða.

  • Vertu óhrædd/ur við að prófa nýja iðju og hreyfðu þig daglega, mundu að margt smátt gerir eitt stórt. Drífðu þig á námskeið og lærðu eitthvað nýtt, lærum svo lengi sem við lifum.
  • Borðaðu að minnsta kosti eitthvað eitt hollt á hverjum degi og drekktu vel af vatni.
  • Hittu fólk sem gleður þig og langar að tala um það sem þig langar að tala um.
  • Passaðu vel upp á svefninn þinn svo þú fáir góða hvíld, best er að halda góðri rútínu í svefnvenjum með því að fara að sofa og vakna á svipuðum tíma.
  • Sinntu handavinnu af ýmsu tagi s.s. spilamennsku, púsli, krossgátum, sudoku, bakstri, eldamennsku, útsaum, rennismíði, prjónum, útskurði, myndlist, leirvinnu, glervinnu og svo mætti lengi telja.

Það er hægt að upplifa ferðalög á ýmsan máta

Að lokum vil ég nefna iðjuna að ferðast, ferðast erlendis, innanlands og innan þíns eigin bæjarfélags því þar leynast ýmis ævintýri sem við oft sjáum ekki í iðju hversdagsins. Þegar við ekki höfum lengur tök á að ferðast vegna heilsunnar þá er fátt betra en að ferðast í huganum gegnum yndislestur. Bækur geta boðið okkur upp á að ferðast um allan heim, upplifa ýmis ævintýri, tilfinningar eins og ást, sorg, spennu, ótta og tilhlökkun. Þegar iðjan að halda á bók eða lesa stafina verður okkur erfið þá má hlusta á sögur, leikrit og bækur gegnum internetið og daisy spilara.

Mikilvægi þess að búa sér öruggt umhverfi

Ég vil líka minna á mikilvægi þess að heimilið okkar og umhverfið í kringum það gefi okkur tækifæri á að eldast með öryggi þannig að okkur líði vel. Það er fátt verra en að lenda í því að fótbrotna illa í hálku sem getur gerst fyrir hvern sem er og enda sem „fangi á eigin heimili“. Það er mikilvægt að við getum komist ferða okkar innandyra ef við óvænt lendum í hjólastól og að birtan sé góð innandyra svo við sjáum vel hvert við erum að fara og gera. Hér mæli ég með ljósaperum sem hægt er að auka birtustigið á og fást meðal annars í IKEA og eins lítil næturljós sem eru fest neðarlega á vegginn á leið okkar frá svefnherbergi inn á bað svo við eigum síður á hættu á að geta ekki sofnað aftur um miðja nótt þótt við þurfum á salernið. Ef þú eða einhver þér nátengdur upplifir iðjuvanda tengt t.d. svefni, næringu, hreyfingu eða eigin aðhlynningu þá skaltu hafa samband við heilsugæsluna svo þú fáir nauðsynlegan stuðning frá heilbrigðiskerfinu.

Forvörn er besta ráðið en ef við gleymum okkur þá er oftast aldrei of seint að byrja að hugsa um heilsuna á meðan við erum á lífi, það hef ég margoft séð, sem betur fer.

Tengdar greinar